Olíuhreinsistöð til Vestfjarða.

Umræðan-Atvinnumál á Vestfjörðum.

Allt frá því að Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, hóf opinbera umræðu um atvinnumál á vestfjörðum. Hefur þörf og góð gagnrýni sannarlega komið fram, en frekar skort heilstæðar lausnir á vandamálum fjórðungsins. Niðurstaða nefndar sem fjallaði um málið var heldur þunn og olli mér miklum vonbrigðum Tal um flutning opinberra starfa og aukin kynning vestfjarða í erlendri markaðssetningu eru jákvæðir póstar að mörgu leyti en langt frá þeirri haldbærri lausn sem nauðsynleg er. Annað dæmi sem dregið hefur verið í dagsljósið er gömul hugmynd um olíuhreinsistöð. Eins og margir muna eflaust hefur tillaga að slíkri starfsemi oftar en einu sinni verið rædd hér á landi, en þó aldrei með tengingu við Vestfirði. Það er mitt faglega mat að slíkt fyrirtæki myndi ekki aðeins rústa ásýnd fjórðungsins heldur stefna einum bestu fiskimiðum landsins í stórhættu með gríðarlegu mengunarslysi. Eins og nýleg dæmi frá Noregi hafa sýnt getur olíumengun frá meðalstóru olíuskipi haft mjög slæm áhrif á veiðar smábáta og fuglalíf, eins og allt annað lífríki fjarðanna. Sú röksemdarfærsla að mengunarhætta sé sífellt að aukast kringum landið og eitt stykki olíuhreinsistöð myndi litlu breyta þar, lýsir einfaldlega fáfræði. Siglingarleiðir þeirra olíuskipa sem nú eiga leið framhjá landinu eru það langt frá landi að engan veginn er hægt að bera það saman við innfjarðar siglingar skipanna.

 Vanræksla stjórnvalda

Hversvegna að útiloka starfsemi álbræðslu eða jafnvel uppbyggingu kjarnorkuvers, fyrst að ráðamenn taka þetta til skoðunar. Tækifæri fjórðungsins hljóta að liggja í þeim kostum sem umhverfið og þekking íbúanna bjóða uppá. Það er þó fullkomlega skiljanlegt að fólk gleypi við skyndilausnum sem ná langt út fyrir þann ramma. Enda innviðir samfélagsins algjörlega vanræktir af stjórnvöldum.

 Lausnin - Alþjóðlegur hafrannsóknarháskóli

Oft er það þó svo að erfitt er að koma auga á skóginn fyrir trjánum. Ótæmandi fiskveiðireynsla og nálægðin við fiskimiðin ættu að setja Vestfirði í fyrsta sæti fyrir staðsetningu alþjóðlegs hafrannsóknaháskóla. Með bættum samgöngum og tryggari netsambandi er hvergi í heiminum sterkara samfélag til hafrannsókna og þörfin eykst stöðugt. Með hverju árinu þrýstir alþjóðasamfélagið á enn frekari sjálfbærar og vistvænar veiðar. Þetta kallar á miklar breytingar um allan heim í fiskveiðistjórnun. Íslendingar standa í fremstu röð meðal fiskveiðiþjóða og eiga möguleika á því að miðla þeirri reynslu áfram og þróa í samstarfi við önnur ríki. Slíkt samstarf ætti í krafti stjórnvalda að ná til stofnanna ESB og Sameinuðu þjóðanna. Þar sem vakningin er sterkari til rannsókna á haffærum og fiskveiðistjórnun. Háskóla samfélag sem þetta yrði sá togari sem vestfirðingar hafa þörf fyrir. Togari sem dregur alla aðra þætti atvinnulífsins af stað með sér og plægir akurinn fyrir uppsprettu fjölmargra sprotafyrirtækja. Rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum skipaflotans, aukin ferðaþjónusta tengd fiskveiðum og náttúruskoðun ásamt sterkari stöðu framleiðslufyrirtækja sem byggja markaðssetningu á hreinni og óspilltri náttúru. Með skýra og djarfa framtíðarsýn eiga Vestfirðir eftir að verða kostur fyrir smá og stór fyrirtæki. Allt frá því að Hrafna Flóki horfði yfir Breiðafjörð og gaf landinu nafn hefur fólkið á vestfjörðum borið stolt landsins í gegnum erfiða tíma. Með þolinmóðu fjármagni frá stjórnvöldum er það hagur allra landsmanna að byggja upp öflugt háskólasamfélag á Vestfjörðum.

 

Olíuhreinsistöð eða stóriðju til Vestfjarða – nei takk!


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband